23.06.17
Listasmiðjan Dýrlingar og borgarhlið

Myndlistaskólinn í Reykjavík tekur þátt í verkefninu Dýrlingar og borgarhlið (Saints and Town Gates). Upphafspunktur verkefnisins er 500 ára siðbótarafmæli. Kulturprinsen í Danmörku stýrir og styrkir verkefnið. Hluti af verkefninu fer fram í Danmörku og eru núna sjö börn frá Myndlistaskólanum í Reykjavík ásamt börnum frá myndlistaskólum í Bergen og Riga á barnamenningarhátíðinni Snapsting for Børn í Viborg.

 
Markmið verkefnisins eru:
·         Að kanna sameiginlega norræna menningararfleifð og sögu siðbótar ásamt því að yfirfæra hana í nútímalegt samhengi.
·         Að börn frá norðurlöndunum og Eystrasaltsríki hittist í Viborg og læri frá og með hvor öðru.
·         Að taka þátt í sköpunarferli með börnum á aldrinum 10-12 ára.
 
Tilgangur verkefnisins er að börn þvert á landamæri hafi tækifæri á að upplifa sig sem hluta af evrópskri menningarsögu og arfleifð og auki þekkingu sína og skilning á mikilvægi siðbótarinnar. Verkefnið hefur þó ekki trúarlegan tilgang.
 
Í Viborg taka börnin þátt í viðburðum og listsköpunarferli. Verkefnið gefur möguleika á að kanna og læra um hvað er líkt og ólíkt með þjóðunum ásamt því að skapa samfélag barna og fullorðna þvert á landamæri.
Myndlistaskólinn í Reykjavík stóð fyrir vikulöngu undirbúningsnámskeiði áður en farið var á barnamenningarhátíðina í Viborg. Þar var m.a. farið í sögu siðaskiptanna á Íslandi og hvaða áhrif þau höfðu á íslenskt samfélag.
 
Barnamenningarhátíðin Snapsting for Børn í Viborg fer fram dagana 17. og 23. júní.
Verkefnið er styrkt að hluta til af Kulturprinsen í Viborg.  Kennarar eru Dagmar Atladóttir og María Sjöfn Dupuis Davíðsdóttir.