01.12.17
Andlitslyfting í afmælisgjöf

Stjórn Myndlistaskólans ákvað að skólinn fengi andlitslyftingu í tilefni af 70 ára afmæli sínu. Nú hefur hönnunarteymið GUNMAD endurhannað allt grafískt viðmót skólans. Teymið skipa grafísku hönnuðirnir Guðmundur Úlfarsson og Mads Freund Brunse sem eru m.a. þekktir fyrir vandaða leturhönnun. Nýtt letur, sérhannað fyrir skólann er einmitt hluti af nýja útlitinu.Þótt nýja útlitið sé í takt við samtímann er það ekki úr lausu lofti gripið. Það hefur sterka tengingu við fortíðina og undirstaðan er gamla merkið, svartir og hvítir bókstafir á svörtum og hvítum flötum. Nýja merkið er mun sveigjanlegra en það gamla en það byggir á einingum sem hægt er að leika sér með og laga að aðstæðum hverju sinni.  Nokkuð er síðan farið var að nota nýja merkið og um skeið hafa auglýsingar skólans verið í samræmi við nýja útlitið. Sú reynsla sem á það er komin er afskaplega jákvæð.  

Í dag lítur svo nýr vefur dagsins ljós í fyrsta sinn. Um hann má segja svipað og um merkið að hann fer úr einum ham í annan eftir því hvar hann birtist. Einingarnar raðast upp eftir því hversu stór viðtökuskjárinn er og því virkar hann jafn vel í snjallsíma og á risaskjá. Gamla vefsíðan hefur verið kvödd með virktum. Hún var barn síns tíma og uppfyllti ekki lengur kröfur sem gerðar eru til vefsíðna. Sú nýja á vonandi eftir að þjóna skólanum og nemendum hans vel og lengi.
Stjórn og starfsfólk skólans þakkar þeim Guðmundi og Mads fyrir ánægjulegt og gott samstarf.

Logomynd2