06.12.16
Kærleiksveran og Evrópsk menningarbörn

Í nóvember og desember hefur barnadeild Myndlistaskólans staðið fyrir verkefninu Kærleiksveran sem unnið er í samstarfi við Melaskóla, leikskólana Sæborg og Hagaborg og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Kærleiksveran er hluti af samstarfsverkefninu Evrópsk menningarbörn (Cultural Children of Europe) sem ætlað er að stuðla að því að menning og listir verði eðlilegur hluti af daglegu lífi 0-8 ára barna. Þátttakendur eru ýmsir skólar og stofnanir frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Lettlandi og Íslandi.  

Í þeim hluta verkefnisins sem Myndlistaskólinn vinnur að taka börn af elstu deildum Sæborgar og Hagaborgar og yngstu nemendur Melaskóla þátt og er þannig um leið mynduð tengslabrú á milli þessara skóla. Nemendurnir vinna í nokkrum hópum sem hittast fimm sinnum á meðan á verkefninu stendur og vinna undir handleiðslu kennara frá Myndlistaskólanum. Áhersla er lögð á upplifun og sköpun í gegnum öll skynfæri. Aðferðin starfendanám (e. action learning) notuð til að greina og meta kennsluna og svara rannsóknarspurningum. Barnið er í aðalhlutverki og er skoðað hvaða áhrif námið hefur á það og hver virkni þess er í náminu. Samhliða þessum markmiðum er tekið mið af Barnasáttmálanum, s.s. í tengslum við lýðræði í skólastofunni. Á meðal þess sem nemendur hafa skapað má nefna svokallaðar kærleiksverur sem búa í fagurskreyttum húsakynnum sem einnig eru hljóðfæri. Í lok vinnunnar hefur foreldrum síðan verið boðið í heimsókn í Melaskóla til að sjá afrakstur sköpunarferlisins þar sem m.a. hafa verið leikin tónverk á hljóðfærin sem nemendur hafa búið til.


Myndlistarmennirnir og kennararnir Elsa Dóróthea Gísladóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir og Guðrún Vera Hjartardóttir hafa haft umsjón með Kærleiksverunni.

Nánari upplýsingar má finna á síðu Cultural Children of Europe

Img 7007