Endimörk Alheimsins: Náttúra og líf við ysta haf

Dagana 7.-11. ágúst býður Myndlistaskólinn í Reykjavík upp á áhugavert námskeið á Melrakkasléttu rétt sunnan við Heimskautsbaug en þetta er í þriðja sinn sem námskeiðið er haldið, með örlítið breyttu sniði hverju sinni.

Námskeiðið hentar fólki á öllum aldri en markmiðið er að kynna myndlistina sem verkfæri til rannsóknar og skoðunar. Viðfangsefnið verður hin harðbýla og töfrandi náttúra svæðisins. Þátttakendur fá einnig innsýn í menningu, sögu og samfélag sem enn blómstrar á þessu hrjóstruga en hlunnindaríka svæði.

Sjónum verður jöfnum höndum beint að gróðri jarðar, fjörunni og hinum fjölmörgu, ísöltu lónum sem einkenna svæðið. Fuglalífi, smádýrum og plöntum verður gefinn gaumur og fylgst með því hvernig fiskurinn hegðar sér á ólíkum tímum sólarhringsins. Þeir sem hafa áhuga á veiðiskap munu því ennfremur finna ýmislegt við sitt hæfi.

Farið verður í vettvangsferðir bæði lengri og styttri og unnið verður í og með náttúrunni. Vettvangsferðirnar eru bæði hugsaðar sem tilraun til tengslamyndunar við svæðið og söfnun hughrifa og viðfangsefna.

Leiðbeinendur verða myndlistarmennirnir Sigtryggur Bjarni Baldvinsson og Þórarinn Blöndal (sem jafnframt eru dellumenn um silungsveiði). Einnig mun Snorri Freyr Hilmarsson teiknari, leikmyndahönnuður og staðarhaldari Óskarsbragga leiðbeina eftir atvikum. Matráður er Signý Jónsdóttir vöruhönnuður en hún hefur rannsakað og unnið með mat í hönnun sinni og er framúrskarandi kokkur. Hún hefur meðal annars unnið merkilega hönnunarrannsókn á melgresi.

Námskeiðið hefst að morgni mánudagsins 7. ágúst og því lýkur með veislu að kvöldi föstudagsins 11. ágúst. Innifalið í verðinu er hádegis- og kvöldverður í fimm daga.

Alla jafnan er kennt daglega frá klukkan 9 til 15. Ef aðstæður leyfa verður farið í veiðiferðir eftir að kennslu líkur en eru þó ekki hluti af skipulagðri dagskrá.

Bækistöð og vinnuaðstaða verður í gamla síldarbragganum, Óskarsstöð, nýrri listamiðstöð á Raufarhöfn. Þetta er sögufrægt hús, byggt árið 1949 af Óskari Halldórssyni „Íslandsbersa“ og eitt af síðustu húsum sem flutt var með seglskipi frá Noregi en húsið hefur verið gert upp á undanförnum árum.

Námskeiðið er haldið í samvinnu við Rannsóknastöðina Rif og Heimsenda, menningarfélag Óskarsbragga á Raufarhöfn með tilstyrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Hámarksfjöldi nemenda: 20
Staðfestingargjald:

Við skráningu skal greiða 30.000 kr staðfestingagjald sem fer uppí námskeiðsgjald. Athugið að staðfestingagjaldið er óafturkræft nema ef námskeið fellur niður.

Fólk er hvatt til að kynna sér styrki stéttarfélaga.

Gisting:

Ýmsir gistimöguleikar eru á svæðinu. Skólinn getur útvegað gistingu á hagstæðu verði í íbúðum á Raufarhöfn en verðið ræðst af fjölda. Áhugasamir sendi póst á Snorra Hilmarsson, snorrihilmars@simnet.is.

Efni og verkfæri:

Teikniblokk, blýantur og vantslitir verða aðalverkfærin en vasaljós, stækkunargler, smásjá, myndavél og önnur þessháttar tól eiga fullt erindi í verkfærakistu þátttakenda -- að ógleymdri veiðistönginni.

Innifalið í námskeiðsverðinu:

Hádegis- og kvöldverður í fimm daga.

Skráningarfrestur:

Fyrir miðnætti 30. júní.

Raufarhofn

Óskarsstöð á Raufarhöfn

Hópur Hefst Lýkur Tímasetning Kennari Verð Skráning
102 7. ágúst, 2023 – 11. ágúst, 2023 7. ágúst, 2023 11. ágúst, 2023 09:00-15:00 Sigtryggur Bjarni Baldvinsson og Þórarinn Blöndal 115.000 kr.