Málaralist

Listmálarabraut er tveggja ára nám þar sem þú lærir aðferðir og efnistök málaralistarinnar og öðlast fræðilega þekkingu á faginu. Rík áhersla er lögð á hugmyndavinnu og að hvetja nemendur til frekari rannsókna og tilrauna með miðilinn.

Listmálarabraut á Instagram.

Námslysing

Nám á brautinni er að stærstum hluta verklegt en fræðilegt nám er u.þ.b. fjórðungur. Til fræðilegra áfanga teljast listfræði og heimspeki auk áfanga um starfsumhverfi listamanna og málstofu. Málstofa er vettvangur fyrir margvíslega umræðu þar sem málverkið er skoðað í stærra sögulegu samhengi og víðara ljósi. Farið er á söfn og sýningar, vinnustofur listamanna heimsóttar og gestafyrirlesarar fengnir í heimsókn.

Einn af áföngum listmálarabrautar er námsferð til Evrópu þar sem nemendur kynnast ýmsum náms- og starfsmöguleikum. Ferðirnar eru styrktar af Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins.

Verklegir áfangar eru flestir kenndir í samfelldum lotum. Þegar nemendur hafa náð valdi á viðfangsefni annar vinna þeir sjálfstætt verkefni. Lifandi samræða um verkefni nemenda er ríkur þáttur í öllum verklegum áföngum.

Nám á listmálarabraut er 120 einingar. Unnið er með ákveðna grunnþætti á hverri önn um sig; klassískar aðferðir, líkama málverksins, tilraunir með efni og aðferðir og samræðu við samtímann. Viðfangsefnið er skoðað frá ýmsum sjónarhornum og nýjar leiðir rannsakaðar. Fræðimenn og fagfólk er fengið til að varpa ólíku ljósi á námsefnið.

Nánari upplýsingar um nám á listmálarabraut má finna í námsbrautarlýsingu.

Námsgjöld skólaárið 2023-24 er 560.000 kr. eða 280.000 kr. önnin.

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði er stúdentspróf af listnámsbraut eða sambærilegt nám. Auk þess skila umsækjendur inn skissubókum og möppu með sýnishornum af eigin verkum og eru ennfremur kallaðir í viðtal við inntökunefnd.

Einungis einn hópur við nám á hverjum tíma. Námið skiptist í fjórar annir sem fjalla hver og ein um afmarkað efni eða aðferð. Það skiptir því ekki máli á hvaða önn nemandi hefur sitt nám. Auglýst er eftir umsóknum þegar hægt er að bæta við nemendum.

HEFUR ÞÚ SPURNINGAR EÐA VANTAR ÞIG FREKARI UPPLÝSINGAR?

Yfirkennari málaralistar er Jón B.K. Ransu, ransu@mir.is