Áfanganám

Nám er ætlað fólki sem lokið hefur stúdentsprófi af listnámsbraut, eða sambærilegu námi. Nám á 4. þrepi beinist að aukinni faglegri sérhæfingu nemandans, stjórnun og þróun á starfsvettvangi. Slíkt nám er skilgreint sem viðbótarnám á framhaldsskólastigi en háskólum er heimilt að meta það til ECTS eininga (háskólaeininga) og þá er leyfilegt að geta þess í upplýsingum um námið. Námsbrautir Myndlistaskólans á 4. þrepi í keramiki, málaralist, teikningu og textíl eru viðurkenndar sem nám á háskólastigi af erlendum samstarfsháskólum en við námslok útskrifast nemendur með diplómu í sinni grein. Námið getur nýst sem hluti af BA-prófi frá listaháskólum og menntastofnunum víðsvegar um heiminn.

Námið hentar einnig nemendum sem lokið hafa háskólanámi í myndlist eða hönnun sem vilja dýpka þekkingu sína á efni og aðferðum á einu af þessum sviðum. Námið er lánshæft hjá Menntasjóði.

Á hverri braut er einungis einn hópur við nám á hverjum tíma. Námið skiptist í fjórar annir sem fjalla hver og ein um afmarkað efni eða aðferð. Það skiptir því ekki máli á hvaða önn nemandi hefur sitt nám. Auglýst er eftir umsóknum þegar hægt er að bæta við nemendum.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við yfirkennara viðkomandi námsbrautar sem veitir frekari upplýsingar.