TEXTÍLL diplómanám

þrykk - Textíldeild - diplómnám Myndlistaskólinn í Reykjavík

TEXTÍLL sem er verktengt hönnunarnám á diplómastigi er skipulagt í samstarfi Myndlistaskólans í Reykjavík við Tækniskólann og háskóla í Skotlandi, Noregi og Danmörku. Textíll er er verktengt hönnunarnám á fjórða stigi samkvæmt NQF-íslenska viðmiðunarrammanum og á fimmta stigi samkvæmt EQF-evrópska viðmiðunarrammanum, viðbótarnám - metið til 120 ECTS eininga á háskólastigi.

 

Námið, sem er fullt nám í dagskóla, samanstendur af fjórum sjálfstæðum námshlutum. Í hverjum námshluta: A, B, C og D, sem er ein önn hver, er unnið út frá einni grunnhugsun sem leidd er í margar ólíkar áttir.  Lögð er áhersla á frjótt vinnuferli og fjölbreytta möguleika í tækni, efnum og aðferðum. Horft er til framtíðar en einnig eru aðferðir og hefðir fortíðar hafðar að leiðarljósi og læra nemendur ýmsar aðferðir við gerð textíls allt frá handspunnum þræði úr íslensku hráefni að stafrænt prentuðum textíl.

Meginmarkmið náms:

  • Að nemendur öðlist þá færni að geta haslað sér völl sem sjálfstæðir textílhönnuðir og -listamenn.

  • Að nemendur geti unnið í tengslum við framleiðslu textílefna í smáum og stórum framleiðslufyrirtækjum við hönnun efna, mynstra og áferða í textíl.  

  • Að nemendur myndi raunhæfar tengingar við ýmsar greinar og fyrirtæki og afli sér þekkingar á menningar- og viðskiptaumhverfi samtímans.  

 

Áhersla er lögð á:

  • Skilning nemenda á uppbyggingu þráðar og mismunandi eiginleikum ýmissa textílefna.

  • Skapandi vinnu í vefnað, prjón, þrykk og í aðrar aðferðir greinarinnar út frá markvissri hugmyndavinnu.

  • Færni nemenda í að fullvinna hugmyndir sínar og sjá framleiðslumöguleika, hérlendis og erlendis.

  • Eflingu á samstarfshæfni og tengslamyndun - bæði innan námsins með hópvinnu og í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.


 

Í textílnáminu skapast vettvangur þar sem persónuleg sköpun einstaklings er tengd við möguleika framleiðslu í stórum og smáum fyrirtækjum, og eiginleikar hins smáa samfélags nýttir þar sem auðveldlega má mynda ný og áhugaverð tengsl milli ólíkra svæða.  Horft er til ríkrar textílsögu Íslands og þess hráefnis sem landið býr yfir með möguleikum til úrvinnslu.  Nemendur eru þjálfaðir í að kynna sér framleiðslumöguleika sem byggja á skilningi á efni, aðferðum og þekkingu á alþjóðlegu samhengi iðnaðar og samfélags.

 

Núverandi deildarstjóri er Arnþrúður Ösp Karlsdóttir sem hóf starf vorið 2015 þegar Andrea Fanney Jónsdóttir textílhönnuður og klæðskerameistari fór í barneignarfrí og hætti sem deildarstjóri en Andrea hafði tekið við keflinu haustið 2012 af Hildi Bjarnadóttur myndlistamanni sem vann við stofnsetningu deildarinnar og stýrði, þar til hún tók sér hlé frá störfum til doktorsnáms við List- og hönnunarakademíuna í Bergen.  

Textíldeildin hóf göngu sína haustið 2010 og frá stofnun deildarinnar hafa ýmsir aðilar, stofnanir og fyrirtæki komið að uppbyggingu og þróun námsins.  Deildin hefur m.a. notið góðs af samstarfi við Heriot Watt University, Glasgow School of Art, Bergen Academy of Art and Design og Via University College, Steinunni Sigurðardóttur fatahönnuð, Glófa ehf., Textílprentun Íslands og Aurum.  Hönnuðir, listamenn og fagaðliar sem starfa hérlendis og erlendis hafa miðlað sinni þekkingu og reynslu til nemenda og m.a. hafa fyrirtæki á borð við Eley Kishimoto og Eribé boðið nemendum deildarinnar starfsnám erlendis.