TEIKNING diplómanám

Diplómanám Teikning módelteikning

TEIKNING hóf göngu sína haustið 2010 með samstarfi Myndlistaskólans í Reykjavík og Tækniskólanum. Námið, sem er fullt nám í dagskóla, samanstendur af fjórum sjálfstæðum námshlutum. Í hverjum námshluta: A, B, C og D, sem er ein önn hver, er unnið út frá einni grunnhugsun sem leidd er í margar ólíkar áttir. Við uppbyggingu námsins í TEIKNINGU er m.a. unnið með tölvuleikjafyrirtækinu CCP og erlendum samstarfsháskóla, Cumbria University, í Englandi. TEIKNING er verktengt hönnunarnám á fjórða stigi samkvæmt NQF-íslenska viðmiðunarrammanum og á fimmta stigi samkvæmt EQF-evrópska viðmiðunarrammanum, viðbótarnám - metið til 120 ECTS eininga á háskólastigi.

Meginmarkmið náms:

  • Nemandi styrki og þroski skilning sinn á teikningu og efli færni í  myndrænni vinnslu.
  • Nemandi öðlist færni í teikningu og fjölbreyttum vinnubrögðum við myndsköpun.
  • Nemandi öðlist skilning á myndrænni frásögn og tungumáli sjónrænnar miðlunar.
  • Nemandi geti túlkað hugmyndir og upplýsingar og miðlað þeim á myndrænan, hagnýtan hátt.

Áhersla er lögð á:

  • Færni nemanda í grundvallaratriðum myndsköpunar, teikningu og myndrænni frásögn.
  • Frjóa hugmyndavinnu sem styrkir sérstöðu og sjálfstæð vinnubrögð nemandans.
  • Þekkingu nemanda á sögu og þróun teiknifagsins og þátt þess í menningu og samfélagi.
  • Hæfni nemanda til greinandi og gagnrýnnar skoðunar á umhverfi sínu og hefðum.
  • Færni nemanda í túlkun hugmynda, miðlun upplýsinga og myndrænni frásagnarlist.

Í teiknináminu skapast vettvangur þar sem áhersla er á að tengja persónulega sköpun við þarfir stórra og smárra fyrirtækja. Horft er til íslenskrar teiknihefðar og til möguleika í nýjustu aðferðum sem tölvumiðlar bjóða upp á. Byggt er á sérstöðu landsins í sögu og hefðum en einnig nýttir möguleikar hins smáa samfélags þar sem auðveldlega má mynda ný og áhugaverð tengsl milli ólíkra sviða þjóðlífsins (framleiðslufyrirtæki, listamenn, hönnuðir, menningarlífið og skólakerfið).

Útskrifaðir nemendur geta unnið við teikningu og hugmyndavinnu hjá tölvuleikjafyrirtækjum, við teiknimyndagerð hjá kvikmyndafyrirtækjum og sem sjálfstæðir teiknarar fyrir útgáfufyrirtæki og á auglýsingastofum.

Hæfni nemanda til að setja fram hugmyndir sínar, efla samstarf og tengingar – bæði innan námsins með hópvinnu og í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.