Skipulagsskrá

  (Charter for the RSVA in English - PDF 40KB)

Skipulagsskrá Myndlistaskólans í Reykjavík

Heiti: 1.gr. Félagið er sjálfseignarstofnun og er nafn þess Myndlistaskólinn í Reykjavík ses.

Heimilisfang: 2. gr.Heimilisfang Myndlistaskólans í Reykjavík ses. er að Hringbraut 121, Reykjavík.

Tilgangur: 3. gr. Sjálfseignarstofnunin skal reka Myndlistaskólann í Reykjavík, sem er viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi sem sinnir auk þess kennslu fyrir börn og unglinga og fullorðinsfræðslu/símenntun. Skólinn skal rekinn í því skyni að veita fræðslu og þjálfun á sviði sjónlista, innsýn í listasögu og ýta undir persónulega, listræna tjáningu. Þannig skal skólinn stuðla að almennri menntun og meðvitund um gildi lista og menningar og víxlverkun þessara þátta við samfélagið, manngert umhverfi þess og náttúru.

Stofnendur: 4.gr.Stofnandi stofnunarinnar er Félag Myndlistaskólans í Reykjavík og leggur það fram allt stofnfé.

Stofnfé: 5.gr. Stofnfé stofnunarinnar er kr. 1.000.000. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar. Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnanda hennar nema réttur til tilnefningar stjórnarmanna.

Tekjur: 6.gr. Tekjur stofnunarinnar skulu vera: Tekjur af skólagjöldum og námskeiðahaldi. Vaxtatekjur. Styrkir, gjafir, auglýsingatekjur eða önnur framlög sem stofnuninni kunna að berast. Aðrar tekjur.

Stjórn: 7.gr. Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur mönnum. Jafnframt skulu við skipan á aðalmönnum í stjórn skipaðir tveir menn í varastjórn til sama tíma. Stjórnin skal kosin til þriggja ára. Heimilt er að endurkjósa stjórnarmenn, þó aldrei til lengri tíma en 6 ára samanlagt. Stjórnarmenn skulu kjörnir á aðalfundi Félags Myndlistaskólans í Reykjavík. Við val stjórnarmanna skal einfaldur meirihluti ráða. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórnin er ábyrg fyrir fjárreiðum stofnunarinnar og ber henni að upplýsa stjórn Félags Myndlistaskólans í Reykjavík um þær sé þess óskað. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerðarbók um það sem gerist á stjórnarfundum.

8. gr. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda. Sama rétt á framkvæmdastjóri. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

9. gr. Stjórn stofnunarinnar ræður skólastjóra sem jafnframt er framkvæmdastjóri stofnunarinnar. Skólastjóri sé ávallt myndlistamenntaður og hafi hákólamenntun eða ígildi hennar á því sviði. Tillögu stjórnar um ráðningu skólastjóra skal þó fyrst leggja fyrir stjórn Félags Myndlistaskólans í Reykjavík. Stjórn ákveður starfskjör skólastjóra. Skólastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Skólastjóri á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður. Heimilt er að skólastjóri sé jafnframt í stjórn stofnunarinnar, þó ekki sem stjórnarformaður. Skólastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

10. gr. Yfirkennarar starfa með skólastjóra og hafa yfirsýn og umsjón hver á sínu sviði. Heimilt er að yfirkennarar séu jafnframt í stjórn stofnunarinnar, þó ekki sem stjórnarformaður. Kennarafundi skal halda minnst einu sinni á haustönn og einu sinni á vorönn.

11. gr. Stjórn stofnunarinnar skal velja einn eða fleiri löggilta endurskoðendur (eða endurskoðendafélög) ásamt varamönnum til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna stofnunarinnar.

Reikningsárið: 12. gr. Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 30. mars ár hvert.

13. gr. Hagnaði sem verður af starfsemi stofnunarinnar skal varið til þeirra verkefna er greinir í 3. gr. samþykkta þessara. Þó er stjórn hennar heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur stofnunarinnar. Hugsanlegt tap af starfsemi stofnunarinnar verður greitt úr sjóðum félagsins eða fært á næsta reikningsár.

Breyting samþykkta, slit og sameining: 14. gr. Heimilt er að breyta samþykktum stofnunarinnar og þarf til þess samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili, svo og samþykki stofnanda stofnunarinnar. Til að auka skuldbindingar aðila þarf einnig samþykki þeirra allra.

15. gr. Með tillögum um slit og skipti á stofnuninni skal fara sem um breytingar á samþykktum þessum. Komi til þess að stofnunin verði lögð niður skal hrein eign hennar renna til hliðstæðra verkefna og tilgreind eru í 3. gr. eftir nánari ákvörðun stjórnar.

16. gr. Þar sem ákvæði samþykkta þessara ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

Þannig samþykkt á aðalfundi, Reykjavík 15. nóvember 2003.
Stjórn Félags Myndlistaskólans í Reykjavík og stjórn Myndlistaskólans í Reykjavík (ses):