Námskeið fyrir börn og ungt fólk

Barna-og unglingadeild Myndlistaskólans í Reykjavík starfar á grundvelli markmiða sem sett eru fram með hliðsjón af Aðalnámskrá grunnskólans og í samræmi við stefnu Menntasviðs Reykjavíkurborgar um sveigjanlegt skólastarf og einstaklingsmiðað nám. Allir kennarar barna-og unglingadeildar Myndlistaskólans í Reykjavík eru háskólamenntaðir á sviði myndlistar, hönnunar eða byggingalistar og er lögð áhersla á að kennarar í barna-og unglingastarfi hafi kennsluréttindi.

Barna- og unglingastarfið greinist í nokkra þætti:

  • Námskeið fyrir börn og unglinga allan veturinn
  • Samstarf við leik-og grunnskóla í Reykjavík
  • Sumarnámskeið fyrir börn og unglinga
  • Listasmiðjur fyrir börn og unglinga

Frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á myndlistarkennslu barna og unglinga í starfsemi Myndlistaskólans í Reykjavík. Kennt er í aldursskiptum hópum einu sinni í viku; 4-5 ára, 6-9 ára, 10-12 ára og unglingahópum 13-16 ára. Í yngsta hópnum er hámarksfjöldi nemenda 6 börn en fjölgað er í hópum eftir því sem aldur nemendanna hækkar. Í unglingahópunum miðast hámarkið við 12 nemendur.

Hægt er að nýta frístundakort Reykjavíkurborgar til að niðurgreiða námskeiðsgjöld fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-18 ára sem eru með lögheimili í Reykjavík. Sjá nánari upplýsingar hér. Einnig er veittur 10% fjölskyldu-/systkinaafsláttur af námskeiðsgjöldum en nánari upplýsingar um afsláttinn fást á skrifstofu skólans.

Vakin er athygli á viðbótarkostnaði fyrir börn og ungmenni með lögheimili utan Reykjavíkur (á ekki við um sumarnámskeið). Reykjavíkurborg styrkir starfsemi barna- og unglingadeildar. Stuðningurinn einskorðast við börn og ungmenni með lögheimili í Reykjavík. Börn og ungmenni búsett  í öðrum sveitarfélögum greiða af þeim sökum 30% hærri námskeiðsgjöld en börn búsett í Reykjavík. Sú upphæð er innheimt sérstaklega.

Skráning á sumarnámskeið í barna- og unglingadeild sumarið 2017 stendur yfir.
Skráning á námskeið haustið 2017 hefst fimmtudaginn 10. ágúst.

Sjá lista yfir námskeið í barna- og unglingadeild.