Keramik

Diplómanám Mótun efni og aðferðir V10

Tveggja ára diplómanám, leið til BA - gráðu.

Nám í keramik er tveggja ára námsbraut við Myndlistaskólann í Reykjavík í samstarfi við Tækniskólann-skóla atvinnulífsins. Unnið er með leir og önnur efni, tengd honum. Námið er leið til BA gráðu við evrópska samstarfsskóla. Keramik er verktengt hönnunarnám á fjórða stigi samkvæmt NQF-íslenska viðmiðunarrammanum og á fimmta stigi samkvæmt EQF-evrópska viðmiðunarrammanum, viðbótarnám - metið til 120 ECTS eininga á háskólastigi.

Nemendur öðlast breiðan grunn þar sem áhersla er lögð á að hugsa út frá möguleikum ákveðinna efna og aðferða, og nýta þá á fjölbreyttan hátt. Nemendum gefst tækifæri til að kynnast hagnýtum möguleikum leirsins við framleiðslu einstakra gripa ásamt fjöldaframleiðslu, sem og til annarra skapandi verka.

Áhersla er lögð á þá sérstöðu sem felst í menningu og náttúru landsins og er hluti námsins tilraunastofa um íslensk jarðefni og skapandi hugmyndir um nýtingu þeirra.

Lögð er áhersla á að tengja eldri verk/þekkingu við það sem nýrra er. Tengja þekkta tækni við; nýja miðla og aðferðir og við samtíma hugmyndir og þarfir.
Í náminu er tekið á skapandi efnisþróun, hönnun/listiðnaðarsögu, verkþjálfun/tækni ásamt tengingu við menningar- og viðskiptaumhverfi samtímans, hérlendis sem erlendis.

Með þessum hætti er þekking tengd möguleikum leirsins sem og starfsumhverfi, og framleiðsluaðferðir skoðaðar frá mismunandi sjónarhólum ásamt því að opna nýjar leiðir að efninu og aðferðum tengdu því. Vettvangur er skapaður fyrir frjóa umræðu og kallaðir eru til fræðimenn og fagfólk úr mismunandi áttum sem gefa innsýn í umfjöllunarefnið, og skoðuð eru tengsl þess við samfélagið, nær og fjær.