Tvö störf laus til umsóknar

Myndlistaskólinn í Reykjavík auglýsir starf deildarstjóra barna- og unglingadeildar laust til umsóknar. Deildarstjórinn ber ábyrgð á öllu starfi sem fram fer innan deildarinnar; skipuleggur fjölbreytt námskeið fyrir börn á aldrinum 4-16 ára á öllum starfsstöðvum skólans, ræður kennara og heldur utan um innlend jafnt sem alþjóðleg samstarfsverkefni sem deildin er þátttakandi í. Um er að ræða 70% starf en mögulegt er að auka starfshlutfallið með kennslu.
Við leitum að lausnamiðuðum og metnaðarfullum myndlistarmanni eða hönnuði með menntun í listkennslufræðum og réttindi til að starfa sem kennari á leik- eða grunnskólastigi. Viðkomandi þarf að hafa til að bera frjóa hugsun, góða skipulagsgáfu, gott vald á íslensku og ensku og brennandi áhuga á skólastarfi. Nýr deildarstjóri tekur formlega við deildinni í byrjun ágúst en æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
 
Skólinn auglýsir einnig eftir umsjónarmanni nemendabókhalds, vefsíðu og kynningarmála. Um er að ræða 100% starf sem felst í því að halda utan um skráningar og námsferla nemenda í námsumsjónarkerfinu inna.is og fleiri skráningarkerfum, sjá um vefsíðu og annað kynningarefni skólans og hafa samskipti við fjölmiðla og auglýsendur.
Við leitum að einstaklingi með góða tölvukunnáttu, gott vald á íslensku og ensku og áhuga á miðlun og markaðsmálum. Skipulagshæfileikar og nákvæmni eru nauðsynlegir kostir og jafnframt er æskilegt að umsækjandi hafi menntun eða mikinn áhuga á myndlist og hönnun. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.
 
Umsóknum skal fylgja yfirlit yfir starfsferil ásamt greinargerð þar sem forsendur umsóknar og framtíðarsýn umsækjanda koma fram. Umsóknir þurfa að berast skrifstofu skólans eða á netfangið skolastjori@mir.is fyrir kl. 17:00 miðvikudaginn 24. maí
 
Frekari upplýsingar veitir Áslaug Thorlacius skólastjóri, skolastjori@mir.is. Skólinn áskilur sér rétt til að hafna öllum umsækjendum. 
 
Myndlistaskólinn í Reykjavík er lifandi og skemmtilegur vinnustaður með á annað þúsund nemendur á ári hverju. Skólinn er sjálfseignarstofnun sem rekin er af félagi starfandi myndlistarmanna og hönnuða. Markmiðið er að miðla þekkingu í verklegum og fræðilegum þáttum sjónlista og efla með því grunnmenntun á sviðinu. Skólinn fagnar 70 ára afmæli á árinu.