Umsagnir nemenda

Heiða Lind Sigurðardóttir nemandi í Mótun 2009-2011. Þýskalandsferð vorið 2011 í máli og myndum. (pdf 5,5 MB).

Björg Harðardóttir Rhode Island School of Design, Department of Ceramics, Graduate Program.  Mótun ‐ leir og tengd efni 2009-2010.

Veturinn 2009 ‐ 2010 var ég við nám í Mótun við Myndlistaskólann í Reykavík. Skólinn var ekki stór og það skapaði mikla nánd við kennarana sem þar starfa og sam-nemendur. Leiðbeinendur komu úr ýmsum áttum; hönnuðir, listamenn (úr leirlist og öðrum listgreinum), með mismunandi reynslu og bakgrunn. Mér fannst gagnlegt að hafa aðgang að fólki sem gefið gat góð ráð og leyst efnisleg og tæknileg vandamál en ekki síður þeim sem höfðu minni skilning og þolinmæði gagnvart takmörkunum leirsins og hvöttu okkur stöðugt til að gera tilraunir með efnið. Verkefnin voru fjölbreytt og mikil áhersla lögð á hugmyndavinnu en meðfram henni lærðum við mjög mikið um efnið og tæknileg atriði við vinnslu þess. Námsferð til Þýskalands bætti enn við reynsluna og sömuleiðis uppsetning á nemendasýningum í lok hverrar annar. Allt þetta nýttist mér vel þegar ég ákvað að sækja um áframhaldandi listnám erlendis. Mikill metnaður er hjá stjórnendum skólans að bjóða upp á fyrsta flokks nám og úrvals kennara. Ég mun lengi búa að því að hafa fengið að vera með í þessu frjóa og skapandi umhverfi. Með þökk fyrir, Björg Harðardóttir.

Þórdís Baldursdóttir nemandi í Mótun 2007-2009. (Þórdís hefur nú einnig lokið BA námi við Cumbria University - innsk.vefstjóra).

Námið – Mótun – leir og tengd efni er mjög gott nám fyrir þá sem vilja læra um leir og tengd efni frá grunni og fá reynslu í meðferð og eðli efnanna til að geta unnið sjálfstætt í efnin og mótað þau  eftir eigin hugmyndum.
Grunnur efnanna er skoðaður og unnið í hin ólíkustu efni s.s.jarðleir, steinleir, postulín, gips, gler og silikon þannig að nemandinn þekki þau og geti áfram unnið sjálfstætt með efnin. Mikil áhersla er lögð á að kenna hinar ýmsu verklegar aðferðir við mótun efnanna – bæði gamlar aðferðir og nýjar. Nemendur vinna einnig með hin ýmsu verkfæri og fá reynslu í meðferð þeirra,s.s.rennslubekkja brennsluofna og gifsmótagerðar.
Mikil áhersla er lögð  á hugmyndavinnu og ferli hugmyndavinnu fylgir allri verklegri vinnu. Kennarar skólans eru allir með mikla reynslu í faginu og lögðu þeir sig, hver og einn,  fram um að hver nemandi næði að koma sínum hugmyndum og vinnu fram á sem bestan máta.
Góðir gestakennarar komu einnig inn á öllum önnum, fólk sem er starfandi hönnuðir og sérfræðingar á sínu sviði og fengum við þar góðar leiðbeiningar og innsýn í nútíma hönnun. Einnig eru tengdir inn í námið ýmsir bóklegir áfangar sem nýtast mjög vel s.s. hönnunarlistasaga, efnafræði glerunga og Rhino þrívíddartölvuteikningar forritið.
Seinasti áfangi námsins – sem var verkefni í að hanna hlut í samvinnu við íslenskt fyrirtæki – nýttist mjög vel sem undirbúningur fyrir sjálfstæða framleiðsluvinnu.
Hverri önn lauk svo líkla með uppsetningu sýningar sem nemendur sáu alfarið um og mikil áhersla lögð á  að nemendur gætu  kynnt sín verk.
Fyrir tilstuðlan styrks frá Leonardo starfsmenntaáætlunar Evrópusambandsins gátum við farið í rannsóknar og námsferð til Evrópu sem opnaði okkur sýn á sögu  og nútíð  evrópskrar postulínshönnunar, sem var mjög fróðlegt.
Ég tel að námið hafi gefið mér góðan grunn í að vinna með leir og tengd efni  - þannig að ég get unnið sjálfstætt í framhaldi af  náminu og eins sem góður undirbúningur til að sækja um erlendan háskóla til að klára B.A nám sem mun þá líka opna fyrir mér ýmsa fleiri möguleika.

Umsögn um Þýskalandsferð í B hluta Mótunar, vor 2011 Sigríður Þóra Óðinsdóttir.

Ég tel að ferð, eins og sú sem við fórum í fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan, séu algjör forréttindi og sé ekki að neinu leyti eitthvað sem maður ætti að taka sem sjálfsögðum hlut. Ég fékk tækifæri til að upplifa og þroskast um leið í þessarri leit að því hverju ég vil skila af mér í gegnum nám mitt og vinnu. Ég og við öll fengum að sjá hvernig hægt er að nota keramik í margskonar og mismunandi hlutverkum og með því varð ég ákveðnari með þá braut sem ég hef valið mér. Nú veit ég meir en áður hvert ég vil stefna, sem er algjörlega ómetanlegt.
Ferðin var sambland af mikilli vinnu, ferðalögum og skemmtun. Ferðin spannaði tvær heilar vikur, farið var út 25. febrúar og komið heim 11. mars. Á þessum vikum sóttum við heim 9 borgir og bæi, akandi á milli á tveimur mini vans. Við fórum út, samblanda af allskonar fólki, vitandi það að í þessarri ferð yrðum við mikið saman allan tímann. Það var raunin, en útkoman var mun samheldnari hópur fólks sem þekkist núna mjög mjög vel.