Saga

Hvernig varð Myndlistaskólinn í Reykjavík til?

Myndlistarskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1947 sem fræðsluvettvangur fyrir áhugamenn um sjónlistir og hefur starfað óslitið síðan. Að skólanum stendur Skólafélag Myndlistaskólans í Reykjavík og er skólinn rekinn af myndlistarmönnum sem sjálfseignarstofnun. Skólinn hefur eflst og þróast á löngum starfsferli og lagt sitt af mörkum til sjónræns uppeldis innan þess starfsumhverfis sem við hefur átt á hverjum tíma. Myndlistaskólinn hefur átt því láni að fagna að til hans hafa ráðist kennarar sem hafa verið mjög hæfir starfandi myndlistarmenn hvers tíma, listamenn sem sjá sjónlistir sem mikilvægan uppeldislegan og félagslega þátt í samfélaginu.

Saga Myndlistaskólans í ReykjavíkSkólinn var lengst af starfandi í Ásmundarsal við Freyjugötu. Á þeim tíma voru flestir nemendur skólans börn og unglingar þó einnig hafi nokkuð verið af fullorðnum nemendum. Við flutning skólans að Laugavegi 118 jókst nemendafjöldinn umtalsvert og fjölgaði þá til muna nemendum í fullorðinsfræðslu. Frá því að skipulagsbreytingar hófust innan framhaldsskólans frá bekkjarkerfi yfir í áfangaskóla hafa grunnáfangar Myndlistaskólans verið metnir til eininga innan framhaldsskólakerfisins og hefur fjöldi nemenda á höfuðborgarsvæðinu notfært sér þann kost við undirbúning undir framtíðarstarf tengt sjónlistum.

Myndlistaskólinn þurfti aftur að flytja starfsemi sína í ársbyrjun 1981 og var í góðu húsnæði við Tryggvagötu 15 allt til ársins 1998. Þá um sumarið var skólinn enn fluttur og í október 1998 hóf hann starfsemi í eigin húsnæði að Hringbraut 121 þar sem hann er til húsa í dag. Bókasafn skólans varðveitir sögu skólans í máli og myndum.