Námshlutar

Náminu er skipt í 4 hluta: A - B - C - D og tekur hver hluti eina önn. Unnið er út frá einni grunnhugsun í hverjum námshluta og hún leidd í margar ólíkar háttir. Með þessum hætti eru möguleikar efnisins skoðaðir út frá mismunandi sjónarhólum sem opna fyrir nýjar leiðir að efninu og aðferðum. Vettvangur er skapaður fyrir frjóa umræðu þar sem kallaðir eru inn fræðimenn og fagfólk úr ólíkum áttum til að gefa innsýn inn í umfjöllunarefnið, skoðuð eru tengsl við samfélagið, nær og fjær.

NÁMSHLUTI A
Skoðun, leit ‐ myndheimur víkkaður út
Hvar er teikningin í umhverfinu, frá upphafi til dagsins í dag? Skoðum handritateikningar á Árnastofnun og teikningar sem eru flokkaðar sem skjöl á Þjóðskjalasafni, teikningu í útskurði muna á Þjóðminjasafni auk teikningarinnar í umhverfinu í dag, t.d. í leiðbeinandi teikningum, með meðalaglösum, á mjólkurfernum, umferðarskiltum og í öðrum myndrænum framsetningum.
Niðurstöður skoðunar eru nýttar til sköpunar myndheims og karaktera með það að markmiði að nemandi sjái nýja möguleika í myndsköpun og efli vitund um umhverfi sitt.

NÁMSHLUTI B
Myndræn frásögn

Unnið með frásögnina í gegnum margvíslega teiknimiðla og aðferðir, ljós og lýsingu, myndbyggingu, andrúmsloft og stemningu. Áhersla er lögð á að myndgera hugmyndaheima, sköpun karaktera, frásagnarmátt myndarinnar, skapandi skrif og myndskeið. Verkefni taka mið af aðfengnum texta. Í lok annar skal nemandi stefna að skilum á nokkrum verkum sem sýna fram á hæfni hans til að takast á við ólík markmið og stíla.

NÁMSHLUTI C
Uppsprettur og tengingar

Samþætting hefðbundinna miðla og tölvu ásamt því að róa á innri mið í myndsköpun.
Rými hugarheimsins, uppsprettur og tengingar hugmyndanna skoðaðar í ljósi heimspeki og hugmyndasögu. Lögð er áhersla á að nemanda gefist tími til persónulegrar framköllunar í verkefnalausnum og viti í lok annar hvar styrkur hans liggur og hvert hann stefnir.
Í þessum áfanga er áhersla á kynningu og kennslu þeirra tölvuforrita sem nýtt eru í skapandi iðnaði. Starfsvettvangur teiknarans kynntur og velt upp hvaða starfsmöguleika er hægt að skapa sér. Við hvað vinnur teiknarinn? Heimsóknir á vinnustaði, kynningar á markaðinum og einnig kynningar á skólum til framhaldsnáms.

NÁMSHLUTI D
Sjálfstæði og styrkur
.
Sjálfstæði og persónulegur styrkur. Frá hugmynd að lokaverki. Áhersla þessarar annar er á sjálfstæða verkefnavinnu. Fjallað verður um handritagerð og hugmyndavinnu.
Verkefni verður unnið sjálfstætt í tengslum við ákveðið fyrirtæki eða sem samstarfsverkefni nokkurra teiknara, eða í þverfaglegu teymi með nemendum úr öðrum skólum, t.d. Margmiðlunarskólanum. Verkefni nemanda skal unnið í samstarfi við markaðinn. Í upphafi verkefnavinnu skal nemandi leggja fram hugmynd og verkáætlun.