Námshlutar

Náminu er skipt í 4 hluta: A - B - C - D og tekur hver hluti eina önn. Unnið er út frá einni grunnhugsun í hverjum námshluta og hún leidd í margar ólíkar háttir. Með þessum hætti eru möguleikar efnisins skoðaðir út frá mismunandi sjónarhólum sem opna fyrir nýjar leiðir að efninu og aðferðum. Vettvangur er skapaður fyrir frjóa umræðu þar sem kallaðir eru inn fræðimenn og fagfólk úr ólíkum áttum til að gefa innsýn inn í umfjöllunarefnið, skoðuð eru tengsl við samfélagið, nær og fjær.

Námshluti A.
Trefjar

Grunneind textílsins skoðuð, trefjarnar, hefðin og bakgrunnurinn. Hver er sterkasti þráðurinn sem við þekkjum í náttúrunni, fíngerðastur og grófastur? Er hægt að búa til bíla úr hampi og teppi úr tré? Hvaða trefjar eru í íslensku umhverfi og hvernig getum við notað þær? Textíll á sér djúpar rætur á Íslandi og munu nemendur kanna möguleika textíls og trefja í tengslum við bakgrunninn og skoða möguleika þeirra í samtímanum, (skoða hvað hefur verið gert og hvað er hægt að gera). Fjölbreyttar tilraunir eru gerðar til að kynnast möguleikum trefjanna í nýju samhengi í gegnum spuna, vefnað og teikningu.

Námshluti B.
Umhverfið

Textíll skoðaður í hversdagsleikanum og hvernig hann hefur áhrif á manngert umhverfi. Textíllinn er settur í nýtt samhengi með tilraunum, innsetningum og samspili við ólíkt umhverfi þar sem skali, áferð og litur eru útgangspunktar. Velt upp hugmyndum um sjálfbærni í efnaframleiðslu, vinnusamfélagi og umhverfi. Hver eru mörk okkar samfélags – hverjir eru framleiðslumöguleikar á Íslandi og erlendis? Velt upp siðferðilegum spurningum um framleiðslu og efni. Meðal annars verður unnið með fundið og keypt efni sem er umbreytt gegnum litun, niðurrif, endurgerð, inngrip, vélprjón, útsaum og mynsturgerð.

Námshluti C.
Hugmyndaþróun

Leitað á innri mið og svigrúm gefið til persónulegrar vinnu. Myndsýn og efnistilfinning nemanda þróuð. Rými gefið fyrir hvern og einn nemanda. Hann velur sér svið – í samvinnu við kennara og þróar þann efnisheim og aðferðir sem hann kýs. Á önninni verða mynduð skýr tengsl milli hins persónulega sviðs og þess sem nemandinn framkallar í efnið sem hann vinnur með. Í áfanganum verður vinnu umhverfi textílhönnuða skoðað með heimsóknum á vinnustofur listamanna og hönnuða og fjallað um starfs möguleika textílhönnuða á Íslandi og erlendis.

Námshluti D.
Framleiðsla

Framleiðsla er kynnt í þessum áfanga. Út frá ólíkum forsendum og áhugasviði velur hver og einn sér vettvang þar sem samskipti og framleiðsla eru útgangspunktar. Hvernig framleiðir maður grænan dýjamosa úr ull? Hvaða framleiðslumöguleikar búa í íslensku samfélagi? Get ég unnið með tyrkneskum handverkskonum eða með íslenska handprjónasambandinu? Gæti ég hannað húfur út frá þekkingu kvenna á elliheimilinu Grund eða út frá netagerðarkunnáttu úti á Granda? Hvernig framleiðslu getur einstaklingur sett upp á Íslandi? Nemendur geri sér grein fyrir möguleikum greinarinnar og hvar þeirra áhugasvið liggur og nýtist og hvert skuli halda næst. Sjálfstætt lokaverkefni verður valið út frá þessari vitund nemenda.