Listnámsbraut - SjónlistadeildNám til stúdentsprófs af listnámsbraut er 200 einingar þar sem nemandi tileinkar sér hæfni á þriðja þrepi. Listnámsbraut við sjónlistadeild samanstendur af 140 einingum og þarf nemandi því að hafa lokið 60 framhaldsskólaeiningum úr öðrum skóla, þar af 30 skilgreindar einingar (sjá inntökuskilyrði á námsbrautarlýsingu). Miðað er við að nemandi í fullu námi ljúki 35 einingum á önn og ljúki því 140 einingum á tveimur árum. 

Námið skiptist í kjarna og brautarkjarna, auk þess sem nemendur taka 1 einingu í heilsurækt á hvorri önn á fyrra námsári. Kjarninn samanstendur af áföngum sem nemendur á öllum stúdentsbrautum taka en brautarkjarninn er sérkennandi fyrir listnámsbrautina og er alhliða grunnnám í myndlist. Námið er að stórum hluta verklegt og viðfangsefni nemenda í bóklegum greinum tekur mið af myndlist og hönnun. Áfangar eru ýmist kenndir reglubundið yfir önnina eða í samfelldum 1-6 eininga námslotum.

Listnámsbraut Myndlistaskólans í Reykjavík hefur hlotið staðfestingu menntamálaráðherra samkvæmt 23.gr. laga um framhaldsskóla nr.92/2008, sbr. auglýsingu í Stjórnartíðindum dagsett 8. desember 2015 (sjá frétt á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytis). Sjá námsbrautarlýsingu listnámsbrautar.

Nánar um umsóknarferli sjónlistadeildar.