Leikskólasamstarf

Þróun samstarfs leikskóla í borginni og Myndlistaskólans í Reykjavík hófst árið 1999 með samstarfi milli Myndlistaskólans og leikskólans Dvergasteins sem styrkt var af Reykjavíkurborg. Síðan þá hefur verkefnið vaxið og dafnað og er nú auglýst eftir þátttökuskólum á ári hverju.

Markmið verkefnisins er öðru fremur að gefa börnum á leikskólastigi og starfsfólki leikskóla tækifæri á að vinna með fjölbreyttan og óvæntan efnivið undir leiðsögn listamanna í skapandi umhverfi, þar sem áhersla er lögð á sjónræna þætti. Þannig er aðferðum og sjónarhorni myndlistarinnar miðlað með það að markmiði að örva og ýta undir slíkt starf innan leikskólanna. Um leið er tilgangurinn að opna hug og augu barnanna fyrir daglegu umhverfi sínu og gefa þeim færi á listrænni upplifun í hversdeginum. Kennarar og nemendur Myndlistaskólans kynnast á sama tíma upplifun leikskólabarna á umhverfinu í gegnum verkin sem þau vinna í sama umhverfi og með sömu efnum og aðrir myndlistanemar nota í sínu námi.

Á vorin er auglýst eftir nýjum leikskólum til þátttöku í verkefninu í samstarfi við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og eru tveir skólar valdir úr hópi umsækenda.

Nánar um samstarf Myndlistaskólans og leikskóla borgarinnar:

  Leikskólasamstarf Leikskólasamstarf