Innra mat skólans

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum að: 

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.

Mat á skólastarfi í framhaldsskóla er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir og er hér kallað innra mat. Hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila og er nefnt ytra mat.    (Mennta- og menningarmálaráðuneyti: Aðalnámskrá framahaldsskóla 2011, almennur hluti, bls. 82)

Sjálfsmat Myndlistaskólans í Reykjavík er með eftirtöldum hætti:

1.      Mat nemenda á kennsluaðferðum og námsefni. Matið fer fram í lok hvers áfanga með rafrænum hætti en nemendum er sendur tölvupóstur með netkönnun sem þeir eru beðnir um að svara. Niðurstöðurnar eru yfirfarnar af deildarstjóra og gerðar aðgengilegar fyrir kennara. Þegar athugasemdir um kennsluhætti eða námsefni gefa tilefni til er fundað með kennara og í framhaldinu sett fram umbótaáætlun.

2.      Mati nemenda á annarri þjónustu og starfsemi eins og stjórnun, ráðgjöf, bókasafni, tölvuveri og tækjakosti. Matið fer fram með óformlegum hætti á fundum nemenda, skólastjóra og deildarstjóra sem haldnir eru a.m.k. einu sinni á önn.

3.      Staða útskrifaðra nemenda sem hafa verið í fullu námi við skólann er könnuð ári eftir að þeir ljúka námi. Könnunin er gerð með ýmsum hætti t.d. með samtölum við fyrrverandi nemendur, netpósti eða öðrum hætti. Upplýsingar um áframhaldandi nám eða störf nemenda ári eftir útskrift frá skólanum eru færðar inn í gagnagrunn skólans.

4.      Mat utanaðkomandi myndlistarmanns eða hönnuðar á skólastarfinu og árangri nemenda. Í tengslum við yfirferð á lokaverkefnum nemenda í fullu námi er að jafnaði kallaður til utanaðkomandi prófdómari. Að lokinni yfirferð er rætt við viðkomandi prófdómara um frammistöðu nemenda, hvaða þættir séu yfir heildina í góðu horfi og hvað megi bæta til að nemendur nái betir árangri.