Erlendir háskólar - samstarf

Samstarf við University of Cumbria, Englandi.

Myndlistaskólinn er í samstarfi við University of Cumbria í Englandi um að taka við nemendum, sem hafa lokið námi í Mótun, inn á þriðja ár í skólanum. Þar með geta nemendur lokið BA honours gráðu á einu ári. Þetta er samt sem áður að undangengnu mati á stöðu hvers nemanda fyrir sig þ.e. hann skilar inn möppu með myndum af verkum og einkunnum.

Námsferðir til Þýskalands.

  • Nemendur í Mótun fara  í námsferð til Þýskalands á vorönn í námshluta B. Þessar ferðir eru í samvinnu við Leonardo menntaáætlun Evrópusambandsins. Í þessum ferðum fara nemendur og heimsækja postulínsverksmiðjur og rannsóknarstofur í hátæknikeramiki. Auk þess er farið á söfn og sýningar og verkstæði hönnuða og listamanna heimsótt.
  • Haustið 2010 fór af stað verkefni í Mótun í samstarfi við postulínsverksmiðjuna Kahla í Þýskalandi. Verkefnið felst í því að nemendur í D hluta hanna og vinna verk sem byggja á hönnun og framleiðslu verksmiðjunnar. Verkefninu lýkur vorið 2011 með sýningu á verkum nemenda en auk þess verða 2 – 3 nemendur valdir til áframhaldandi vinnu við verk sín á gifsverkstæðum Kahla.

Erlendir gestakennarar koma á hverju ári og kenna við deildina. Oft eru þetta kennarar sem skólinn hefur byggt upp samskipti við, í tengslum við námsferðirnar erlendis.

  • Barbara Schmidt, yfirhönnuður í Kahla postulínsverksmiðjunni, Þýskalandi. Barbara hefur unnið sem hönnuður hjá Kahla í 19 ár og er margverðlaunuð fyrir hönnun sína. Hún kom í janúar 2011 til að leiðbeina nemendum og fylgja eftir sameiginlegu hönnunarverkefni milli Mótunar og Kahla
  • Jens Pfotenhauer, gifsmótagerðarmeistari og hönnuður. Jens rekur eigið verkstæði í Leipzig, auk þess sem hann ferðast um heiminn og vinnur gifsmót fyrir ýmsar postulínsverksmiðjur en einnig sem hönnuður. Jens kom fyrst hingað til kennslu í febrúar 2008 og svo aftur í febrúar 2011.
  • Takeshi Yasuda er keramiker sem vinnur öll sín verk á rennibekk og notar postulín. Hann er japanskur að uppruna en hefur búið áratugum saman í Englandi. Hann hefur lengst af búið í Bath og rekið vinnustofu þar ásamt konu sinni. Seinni árin hefur hann rekið gestavinnustofur fyrir listamenn í Kína en jafnframt því ferðast hann um og kennir og er auk þess prófdómari við keramikdeildina í Royal College í London. Takeshi hefur komið á hverju ári frá því Mótun tók til starfa og kennt rennslu í eina viku.
  • Natalie Lähdismaki er finnskur keramikhönnuður sem hefur hannað mikið fyrir Arabia postulínsverksmiðjurnar í Finnlandi. Auk þess er hún lektor við Listiðnaðarháskólann í Helsinki. Árið 2009 var hún valin Unghönnuður ársins í Finnlandi. Natalie kom í ársbyrjun 2010 til að kenna hugmyndavinnu fyrir postulínshönnun.
  • Hubert Kittel er yfirkennari í keramikhönnunardeildinni við Lista- og hönnunarháskólann, Burg Giebichenstein í Halle Þýskalandi. Hubert kom í febrúar 2008 til að kenna notkun á „keraflex“ en það eru örþunnar postulínsþynnur blandaðar lífrænum efnum. Við brennslu brenna lífrænu efnin burt og eftir stendur næfurþunnt postulín.
  • Emiko Oki er ungur japanskur hönnuður, búsett í London. Hönnun hennar er nýstárleg og óvenjuleg. Emiko kom í janúar 2008 og kenndi hugmyndavinnu.