Diplómanám


 

Diplómanám við Myndlistaskólann í Reykjavík er sérhæft list- og hönnunarnám fyrir nemendur sem hafa lokið stúdentsprófi af listnámsbraut framhaldsskóla eða eiga annað sambærilegt nám að baki. Námsbrautirnar eru fjórar: í keramiki, málaralist, teikningu og textíl. Námið sem er fullt tveggja ára nám í dagskóla er að stærstum hluta verklegt og einkennist af áherslu á efni, aðferðir og tækni, hugmyndavinnu, persónuleg vinnubrögð og rannsóknir. Diplómanám við Myndlistaskólann miðar að því að dýpka fagþekkingu nemenda, auka víðsýni þeirra og efla kjark þeirra til frekari tilrauna með miðilinn. Ennfremur að nemendur öðlist færni til að vinna að eigin verkefnum sem sjálfstæðir listamenn eða hönnuðir. U.þ.b. fjórðungur náms á öllum brautum er af fræðilegum toga þar sem áhersla er lögð á heimspeki, sögu og starfsumhverfi viðkomandi greinar, auk menningar- og viðskiptaumhverfis samtímans.

Námsbrautir í keramik, teikningu og textíl voru þróaðar í samstarfi við Tækniskólann og erlenda háskóla með styrk frá Leonardo starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins. Nám í málaralist er í fyrsta sinn í boði haustið 2016 en fyrstu tvö árin nýtur brautin stuðnings frá hópi velviljaðra einstaklinga og fyrirtækja.

Námið er áfanganám á BA-stigi, metið til 120 ECTS eininga. Að loknu námi geta nemendur sótt um að ljúka BA gráðu við listaháskóla og er þá undir viðkomandi skóla komið hvort námið er metið til eins eða tveggja ára.

 


Námsferðir til Evrópu. Síðan 2007 hefur Myndlistaskólinn í Reykjavík sótt um styrki til Menntaáætlunar Evrópusambandsins fyrir námsferðum nemenda og kennara til Evrópu og árið 2010 fékk skólinn vottun á Leonardoverkefnið og styrkloforð sem gilti til ársins 2013. Skólinn fékk síðan í fyrsta sinn styrk frá Erasmus+ árið 2014. Styrkurinn hefur gert nemendum á annari önn (B-hluta) í diplómanámi í keramik, teikningu og textíl, kleift að fara í tveggja vikna vettvangsferð til Evrópu að heimsækja skóla og fyrirtæki. Í ferðunum eru nemendur og kennarar í beinu sambandi og samtali við fagfólk í ýmsum störfum á sviði keramiks, teikningar og textíls - við menntun, efnisrannsóknir, nýsköpun, hönnun og framleiðslu.